Skýrsla stjórnar

Stjórn Allir meðlimir þeirrar stjórnar sem skipuð var haustið 2017 gáfu kost á sér til áframhaldandi setu fyrir utan Ásdísi A. Arnalds, en í hennar stað kom Þórhildur Katrín Stefánsdóttir inn í stjórnina. Í stjórn sitja Erla Edvardsdóttir, formaður, Eygerður Helgadóttir, varaformaður, Guðbjörg Snorradóttir, gjaldkeri, Berglind J. Richardsdóttir, ritari og Þórhildur Katrín Stefánsdóttir, meðstjórnandi.

Fastráðið starfsfólk í a.m.k. 50% starfi

Vegna skipulagsbreytingar var staða framkvæmdarstjóra fimleikadeildarinnar, sem Vilhelmína Vilhjálmsdóttir gengdi, lögð niður frá og með ágúst 2018. Hluti verkefna framkvæmdarstjóra voru færð yfir til stjórnar og sá hluti verkefnanna sem snýr að FSÍ og krefst fimleikaþekkingar sett á deildarstjóra fimleikadeildarinnar en Ingibjörg Antonsdóttir, sem kom úr fæðingarorlofi í 100% starfshlutfall, var ráðin í þá stöðu auk þess sem hún sér um þjálfun. Halldóra Björg Þorvaldsdóttir gengdi stöðu yfirþjálfara út árið 2018 og Alexander Sigurðsson var þjálfari í 50% stafi, en hann tók við starfi yfirþjálfara frá áramótum 2018 í 100% starfshlutfalli.

Annað starfsfólk

12 þjálfarar starfa hjá deildinni, auk yfirþjálfara og fastráðins þjálfara. Aðstoðarþjálfarar eru 16 talsins. Áhersla hefur verið lögð á að bæta hæfni og menntun þjálfara. Þjálfarar hafa sótt námskeið á vegum FSÍ á hverju ári og bætt þar við þjálfaramenntun sína. Þetta eru almenn námskeið á þeirra vegum, móttökunámskeið, dómaranámskeið o.fl. Að auki hefur deildin sent þjálfara á þjálfaranámskeið í Ollerup, DK. Ennfremur þykir mikilvægt að hefja fimleikaárið á fræðslufundi og hefur fimleikadeildin undanfarin ár séð um að skipuleggja þess háttar fundi fyrir þjálfara deildarinnar. Afturelding hélt sameiginlegan starfsdag fyrir allt starfsfólk félagsins í byrjun hausts 2018, líkt og árið áður. Starfsdagurinn var mjög vel sóttur af þjálfurum fimleikadeildarinnar.

Auk þess að annast þjálfun hafa nokkrir þjálfarar frá vori 2018 fengið greitt fyrir viðveru í fimleikasalnum þegar salurinn er leigður undir afmæli og bekkjarkvöld. Hlutverk starfsfólks í sal er að gæta þess að farið sé að reglum í salnum og að annast frágang svo ekki skapist aukið álag á starfsfólk íþróttahússins vegna útleigunnar.

Húsnæði og áhöld

Stjórn deildarinnar telur afar mikilvægt að halda áfram að endurnýja áhaldakostinn á næstu árum. Engin áhöld voru keypt árið 2018 en það gengur vonum framar að safna fyrir áhöldum sem verða keypt 2019.

Enn hefur ekkert gerst í málum varðandi húsnæðið vegna raka sem myndast undir dansgólfinu og er að valda skemmdum á því. Einnig lekur húsið í ákveðnum veðurskilyrðum. Höfum við sent formlegt erindi til Aðalstjórnar vegna þessa.

Flokkar og iðkendur

Iðkendum fækkaði töluvert á vorönn 2018 en þeir voru samtals 257 sem við teljum að megi rekja til þjálfaraskorts á önninni á undan. Á haustönn 2018 varð aftur aukin aðsókn og mynduðust biðlistar. Fimleikadeildin brást hratt og örugglega við og náði að koma öllum iðkendum að. Iðkendafjöldi á haustönn var samtals 302 og fer stöðugt fjölgandi.

FFA og fullorðinsfimleikar voru sameinaðir á haustönn og voru æfingar einu sinni í viku og þar varð fjölgun og var óskað eftir að æfingar yrðu 2 í viku sem deildin stefnir á að gera.

Búningar

Undanfarin ár hefur fimleikadeildin lánað elstu keppendum deildarinnar heilgalla fyrir öll mót, engin undantekning var á því þetta árið og hefur verið mikil ánægja með þetta form í foreldrahópnum. Á síðasta ári var til umræðu að rukka keppendur um lágt gjald fyrir leigu á búningunum en horfið var frá þeirri hugmynd og verður það þannig áfram. Fimleikafatnaðurinn frá Chopar sem yngri iðkendur nota við æfingar og keppni fluttust yfir til JAKO og munu verða áfram í sölu þar, enda hefur samstarfið við þau gengið vel. JAKO sér einnig um að selja öllum iðkendum fimleikadeildarinnar félagstreyjuna, sem er rennd hettupeysa með merki Aftureldingar á. Einnig sér JAKO þjálfurum deildarinnar fyrir fatnaði sem þau nota við æfingar og mót.

Sýningar

Ákveðið var að fresta stóru jólasýningunni í ár og var það vegna fyrirhugaðra framkvæmda á sal 3 þar sem sýningin hefur verið síðustu ár. Sýning fimleikadeildar verður því í staðinn nú á vordögum í lok maí. Jólasýningarnar voru því með breyttu sniði inni í fimleikasalnum okkar og sátu foreldrar og aðrir gestir því vítt og breytt um salinn meðan iðkendur sýndu listir sínar. Þetta fyrirkomulag vakti mikla lukku. Leikskólabörnin fengu síðan sína sýningu en þau fóru í gegnum þrautabraut í öllum salnum ásamt foreldrum og að lokum kom íþróttaálfurinn í heimsókn.

 

Fjáröflun

Stærsta fjáröflun deildarinnar er útleiga á fimleikasalnum undir afmæli og bekkjarkvöld ásamt fastri leigu fyrir stóran hóp iðkenda úr öðru fimleikafélagi þar sem þau bíða eftir nýjum sal í sínu sveitarfélagi. Afmælisleigan hefur aukist mjög eins og sjá má í ársreikningi. Yngstu þjálfararnir hafa verið mjög duglegir að vinna við þessa afmælisleigu og sjá til þess að vel sé gengið um salinn.

Mótahald

Fimleikadeild Aftureldingar var um langt skeið undanþegið frá því að halda mót á vegum FSÍ vegna áhaldaskorts. Eftir að deildin festi kaup á nýjum Fiber, sumarið 2017, fór FSÍ þess á leit við fimleikadeildina að hún héldi tvö mót á ári, þ.e. eitt á hvorri önn. Eins og fram kom í ársskýrslu 2017 hélt deildin tvö mót við upphaf árs 2018. Annarsvegar stökkmót og hinsvegar 7 Toppmót og gekk skipulagning þeirra afar vel. Margir foreldrar aðstoðuðu við áhaldaflutning og var félaginu hrósað fyrir velheppnuð mót og gott skipulag. Afturelding átti keppendur á stökkmótinu en enga keppendur á Toppmótinu. Annað mót verður síðan haldið 10.-12. maí næstkomandi.

Uppskeruhátíð

Helena Einarsdóttir og Guðjón Magnússon eru fimleikafólk Aftureldingar 2018.

27. desember var uppskeruhátíð Aftureldingar og tilnefndum við Helenu Einarsdóttur og Guðjón Magnússon til Íþróttamanns og -konu Aftureldingar og hlutu þau viðurkenningu sem fimleikakona og maður Aftureldingar.

Sumarnámskeið

Boðið var upp á sumarnámskeið og sumaræfingar í júní og ágúst 2018 og voru þau vel sótt. Ekki hefur þó verið tekin ákvörðun um hvort sumarnámskeið verði haldin árið 2019 vegna þess að námskeiðin hafa ekki staðið fyllilega undir sér, fjárhagslega. Deildin hefur óskað eftir því að Mosfellsbær ráði fleiri ungmenni með bakgrunn í fimleikum til að kenna á sumarnámskeiðunum, líkt og tíðkast hefur í fótboltanum um langt skeið, en ekki hefur verið orðið við þeirri ósk.

Ársreikningur

Tekjur deildarinnar jukust um rúmar 10 milljónir á milli ára. Það má meðal annars rekja til aukinnar leigu á salnum okkar og áhaldastyrks frá Mosfellsbæ. Leigan á salnum okkar fór fram úr björtustu vonum og hefur hann verið þétt setin undir afmæli og bekkjarkvöld, 8 greinilegt var að það var mikil vöntun á svona aðstöðu í Mosfellsbæ. Einnig hafa önnur fimleikafélög leigt salinn undir æfingar hjá sér.

Gjöld deildarinnar hækkuðu um tæpa milljón á milli ára. Hækkunin er að mestu leyti aukinn launakostnaður en gert var ráð fyrir þeirri hækkun í fjárhagsáætlun. Við sendum þjálfarana okkar á fleiri námskeið á árinu 2018 og er því nokkur hækkun á þeim gjaldalið frá árinu áður.

Rekstrarniðurstaða ársins 2018 er tæpar 15 milljónir í hagnað. Ástæðan er, eins og áður hefur komið fram, tafir á áhaldakaupum og aukin leiga á salnum. Þegar árið 2018 var áætlað var gert ráð fyrir 4.500.000kr. í áhaldakaup. Áhaldakaupin töfðust en í lok árs pöntuðum við inn ný áhöld fyrir tæpar 3.500.000kr. og voru þau greidd í byrjun árs 2019. Það er því mikilvægt að taka tillit til þeirra þegar hagnaður ársins er skoðaður.

Annað árið í röð kom ásókn í leiguna á salnum okkur á óvart og fór verulega fram úr því sem við áætluðum eða rúmlega 1.600.000kr. Hluti af því er vegna leigu frá öðru fimleikafélagi sem leigði salinn á föstum tímum á haustönn.

Vegna rekstrarniðurstöðunnar var tekin sú ákvörðun að æfingagjöldin verða ekki hækkuð í nánustu framtíð þrátt fyrir komandi kjarasamninga og yfirvofandi launahækkana.