Skýrsla meistaraflokks kvenna

Meistaraflokkur kvenna

 

Meistaraflokkur kvenna komst upp í Olísdeildina eftir síðustu leiktíð og spilaði þar í vetur, ásamt 7 öðrum liðum í þriggja umferða deild.  Fyrir tímabilið var farið í það að styrkja hópinn og fá til liðsins nokkra nýja leikmenn.  Gengið var þó mjög brösótt í allan vetur og þó að nokkrir leikir, sérstaklega í fyrstu umferð, hefðu getað fallið okkar megin, kom það ekki til og að lokum féll liðið án stiga aftur niður í Grill 66 deildina.  Heimsfaraldurinn setti einnig mark sitt á þennan vetur eins og þann síðasta og fóru bæði æfingar og leikjaplön úr skorðum og reyndi það mikið á alla.

Þjálfarateymið var óbreytt frá fyrra ári, en Guðmundur Helgi Pálsson aðalþjálfari, Þór Guðmundsson aðstoðarþjálfari og Einar Bragason markmannsþjálfari stóðu í stafni og sinntu liðinu vel og faglega á erfiðum tímum og eiga hrós skilið.  Þá sinnti sjúkranuddarinn Mundi, Guðmundur Karl Úlfarsson, liðinu áfram í leikjum vetrarins.

Nokkuð margar breytingar urðu á leikmannahópnum fyrir tímabilið en Sylvía Björt Blöndal kom frá FH, Ólöf Marín Hlynsdóttir úr ÍR, Lovísa Líf Helenudóttir, Tanja Glóey Þrastardóttir og Hrafnhildur Hólm Guðnadóttir frá HK og Katrín Hallgrímsdóttir úr Víkingi.  Einnig komu um tíma tveir leikmenn að láni frá Fram en þeir héldu ekki lengi út í mótlætinu og sneru aftur í Safamýrina. Þegar leið á haustmisserið fór að halla undan fæti og misstum við nokkra lykilleikmenn út af ýmsum ástæðum, Ragnhildur Hjartardóttir varð ófrísk, Telma Rut Frímannsdóttir fór til starfa erlendis og Ólöf Marín og Katrín Hallgrímsdóttir þurftu að taka hlé.  Það var því frekar þunnur hópur sem spilaði leikina eftir áramótin og endurtekið þurfti að taka nýja stefnu og spila úr þeim mannskap sem eftir stóð.  Það verður ekki annað sagt en að stelpurnar hafi sýnt ótrúlega seiglu og úthald í öllu því mótlæti sem gekk yfir í heimsfaraldri, tapleikjum og áföllum varðandi leikmannahópinn.  Þær sem héldu út standa sterkari á eftir og hafa lært mikið.  Þá eru ungir leikmenn sem hafa tekið sín fyrstu skref og sýnt bæði framrarir og karakter, en það eru leikmenn sem vonandi nýta reynslu vetrarins til góðra verka í framtíðinni.

Meistaraflokksráðið hefur lagt sig fram um að halda vel utan um heimaleiki, fjáraflanir og aðra umgjörð og hafa Erla Dögg formaður og Sigurður Hansson gjaldkeri verið áfram í forsvari.  Það er alltaf rúm fyrir fleira fólk og góðar hendur og mælum við með því að fólk komi til liðs við annars mjög góðan og skemmtilegan hóp meistaraflokksráðs kvenna.

Áfram Afturelding – áfram stelpur

 

Erla Dögg Ragnarsdóttir

Formaður meistaraflokksráðs kvenna í handbolta