Skýrsla stjórnar

Skýrsla stjórnar Blakdeildar Aftureldingar 2022

Árið 2021 var ár faraldursins mikla eins og meginhluti ársins 2020 var.  Þetta leit vel út í byrjun árs og  Íslandsmótið fór í gang en síðan var skellt í lás aftur  og leikjum frestað.  Það tókst þó að klára bæði Kjörísbikarinn og úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn sem var framför frá árinu áður.

Bikarkeppni BLI , Kjörísbikarinn var spilaður miklum takmörkunum. Bæði karla og kvennaliðin okkar komust áfram í FINAL 4 helgina í Digranesi. Stelpurnar duttu út í 4ra liða úrslitunum þar sem HK vann þann leik og varð síðan bikarmeistari. Strákarnir unnu hins vegar sinn leik og spiluðu þeir frábærlega og slógu HK út í 4ra liða úrslitunum og spiluðu við Hamar í úrslitaleiknum. Þeir áttu flottan leik en urðu að játa sig sigraða eftir hörku leik í beinni útsendingu á RUV.

Blakhóparnir sem æfðu undir merkjum Aftureldingar  á leiktíðinni 2020-2021 voru eftirfarandi:

Meistaraflokkur karla: Tefldi fram liði í Mizunodeild karla.

Meistaraflokkur  kvenna: Tefldu fram liði í Mizunodeild kvenna.

Meistaraflokkur kvenna: 3-4 deild:   2 lið sem æfa og keppa í Íslandsmótum BLÍ

Afturelding Töff  : 2 lið á Öldungamótum og 1 lið í Íslandsmóti BLÍ

Afturelding Bombur: Ætluðu að taka þátt í sínu fyrsta Íslandsmóti sem ekki varð af og sínu fyrsta öldungamóti einnig.

Afturelding karlahópur sem spilar á Öldungamótum og æfir einu sinni í viku.

Blakhópurinn Steve Öxl : Æfingahópur sem ætlaði að taka þátt í sínu fyrsta öldungamóti og tók þátt í Íslandsmótinu í vetur.

Blakskvízur   er hópur sem myndaðist eftir námskeið fyrir byrjendur sem haldið var í September 2021 og svo að sjálfsögðu iðkendur í BUR

Starfið:

Það eru flestir sammála því að afreksstarf er nauðsynlegt innan íþróttafélaga og að það hvetur yngri iðkendur til dáða og fyrir þá sem stefna hærra þá er það nauðsynlegt.

Eins og komið hefur fram þá heldur Blakdeildin úti starfi fyrir marga aldurshópa á mörgum mismunandi getustigum hvað fullorðna snertir.  Boðið er upp á fullorðins hópa sem keppa í Íslandsmótum á vegum Blaksambands Íslands sem og þá sem eru eingöngu æfa sér til skemmtunar og blandast þessir hópar saman gjarnan og því getustigið mismunandi í hópunum.  Á síðasta aðalfundi var stofnað svokallað Neðri deildar ráð og eiga að vera 2 fulltrúar  úr hverjum æfingahópi. Það hefur ekki alveg gengið eftir en 5 konur úr þremur hópum hafa setið í þessu ráði frá síðasta aðalfundi.

Ég legg það til að á þessum aðalfundi verði ráðið þannig skipað að 1 fulltrúi úr öllum æfingahópum deildarinnar, undanskildum barna- og unglingadeildum myndi ráðið.

Æfingahóparnir eru: Konur 3.og 5.deild myndu hafa 1 fulltrúa, Afturelding Töff einn fulltrúa,  Afturelding Bombur einn fulltrúa, Afturelding Skvízur einn fulltrúa og karlahópurinn Steve Öxl einn fulltrúa.  Þetta gerir 5 manns og sameiginlegt skipulag varðandi ferðir á Íslandsmót og Öldungamót og allt sem lýtur að samvinnu og það sem sameinar þessa hópa er viðfangsefni ráðsins þannig að samvinna myndast þvert á hópana. Þar má m.a. ræða búningamál.

Ráðið kýs sér formann sem situr í stjórn Blakdeildarinnar ásamt formanni deildarinnar og formönnum og gjaldkerum BUR og mfl. ráðs.

Ráðið komi sér upp netfangi þannig að allar upplýsingar frá t.d.  BLI  varðandi neðri deildir komi á einn stað og þaðan sé upplýsingum deilt á hópana.

Flaggskip Blakdeildarinnar eru meistaraflokkarnir okkar sem spila í úrvalsdeildum karla og kvenna og eru það fyrirmyndir ungu iðkendanna okkar og liggur það í hlutarins eðli að þær deildir eru dýrastar í rekstri og því leggjum við mikla áherslu á að finna styrktaraðila til að auðvelda þann rekstur en rekstarstyrkur Mosfellsbæjar er mikil búbót í því verkefni og skipta sköpum í því að halda úti metnaðarfullu starfi þar.  Styrkur vegna Covid kom fyrir árið 2020 en ekki hefur heyrst neitt um þannig styrk vegna 2021 og kalla ég svolítið eftir því þar sem mikið af fjáröflunartækifærum duttu upp fyrir vegna veirunnar skæðu einnig það ár svo sem mótahald sem er ein helst fjáröflun okkar í þessari íþrótt.

Afturelding tók í gagnið Sportabler í haust og hefur kerfið verið að festa sig í sessi og þjálfarar og foreldrar og iðkendur að átta sig á því hvernig best er að nýta sér það kerfi.

 

Fjárhagslegt umhverfi:

Fjárhagslega þá hefur umhverfið oftast verið mjög erfitt fyrir blakíþróttina.

Erfitt er að fá fyrirtæki til að styrkja starfið, enda lítið um að fjölmiðlar fjalli um þessa íþrótt. FINAL 4 helgin í Bikarkeppni BLI er mjög mikilvæg fyrir meistaraflokkana okkar.   Með því  að komast í úrslitaleikina, skapaðist möguleikinn til að selja auglýsingar til fyrirtækja því um beinar útsendingar á RUV er að ræða frá úrslitaleikjunum og hefur það mikið gildi greinilega.

Þess utan þá eru helstu fjáraflanir deildarinnar  æfingabúðir bæði fyrir börn og fullorðna sem og skemmtimót og Íslandsmót sem félagið fær úthlutað og hafa haldið deildinni á floti fjárhagslega allt frá fyrsta Öldungamótinu sem deildin hélt árið 2002.

Í mars 2021 átti Blakdeild Aftureldingar að sjá um Íslandsmót neðri deilda og var það liður í mikilvægri fjáröflun meistaraflokkanna okkar. Það mót var fellt niður vegna Covid.

Meistaraflokksráðið hefur undanfarin ár látið gera endurskinsmerki með merki Aftureldingar á og fengið styrki frá fyrirtækjum til að styrkja framtakið. Endurskinsmerkin hafa síðan verið gefin öllum börnum 4ra ára og eldri í Mosfellsbæ.  Ákveðið var að sleppa síðasta ári vegna Covid m.a. og ástandsins í þjóðfélaginu. Hins vegar stendur til að fara aftur í það verkefni 2022.

Sameiginleg fjáröflun Barna – og unglingaráðs og meistarflokkanna okkar er happdrætti Blakdeildarinnar og flatkökusalan mánaðarlega.

Sem betur fer þá tekst deildinni að nýta samlegðaráhrif af því að hafa sameiginlega þjálfara og sparar það bæði BUR og meistaraflokkunum talsverðar upphæðir á árs grundvelli og er þessi fjáröflun mjög mikilvæg í þeirri samvinnu.

Tindahlaupið er stór þáttur í fjáröflun meistaraflokkanna fyrir veturinn og fer fram á bæjarhátíðinni Í Túninu heima í lok ágúst ár hvert. Sem betur fer var hægt að halda hlaupið 2021 þrátt fyrir að bæjarhátíðin hafi ekki verið haldin.  Þetta er frábær fjáröflun fyrir meistaraflokkana okkar og skemmtileg og hefur samningur við Mosfellsbæ og Björgunarsveitina verið endurnýjaður og þykir samstarfið ganga mjög vel.

Æfingabúðir fyrir börn og unglinga  var hægt að halda í ágúst 2021 en  engin gisting var í boði og mun færri þátttakendur en venjulega og því allt mun smærra í sniðum og fáröflunin samkvæmt því eins og árið áður.

Áramót Blakdeildar Aftureldingar sem haldið  hefur verið  á Gamlársdag sl 16 ár féll niður eins og árið á undan vegna covid, og svo aftur Íslandsmót neðri deilda sem við áttum að hafa umsjón með í janúar á þessu ári.

Samningur var gerður við BARION Mosó um logo á leikjum og á búningum meistaraflokkanna í haust og kemur það vel út.

BUR – Barna- og Unglingastarfið

Stefnt hefur verið að því leynt og ljóst að fjölga iðkendum í yngri flokkum hjá okkur ásamt því að reyna að fá inn fleiri foreldra í starfið.  Erfiðara hefur verið vegna faraldursins að kalla til funda með foreldrum og iðkendum og hefur það sitt að segja.  Við eigum mjög efnilega og flotta krakka sem þarf að halda utan um og köllum við eftir aðstoð foreldra þar.

Frábærlega hefur gengið að fjölga í strákahópnum okkar sem var við það að lognast út af ,en í haust voru 3 strákar að æfa. Í dag eru 16 strákar á skrá á aldrinum 14-18 ára sem sækja æfingar í hópnum og er það glæsilegt og mikil gleði með þennan hóp. Stefnum við að því að senda þá í deildarkeppni BLI í haust þannig að þeir fái einhver verkefni á næsta leikári.

Veturinn 2020-2021 héldum við út æfingum í  yngri flokkum í eftirtöldum flokkum:

U19 stúlkur sem spiluðu í 1.deild kvenna en ekki var keppt á vegum BLÍ í þeim aldursflokki.

U16  stúlkna sem voru skráðar í 5.deild kvenna sem ekki fór fram.

U15 piltar sem einungis taldi 4-6 drengi sem urðu 3 þegar haustönnin byrjaði.

U14  blandaður stúlkum og drengjum

U10 flokkur blandað stúlkum og drengjum

 

U-16 kvk urðu í þriðja sæti á bikarmóti BLI á Akureyri  í febrúar 2021.

U-15 strákar urðu í 4 sæti á bikarmótinu.

Bæði liðin enduðu í 4 sæti á Íslandsmóti í maí 2021.

BUR sendi lið á öll Íslands og bikarmót í vetur en ekki tókst að halda nein héraðsmót á Suðvesturhorninu eins og BLI lagði upp með í haust. Covid hefur án efa haft áhrif á það.

Nýtt fyrirkomulag var tekið upp hjá BUR í haust og held ég að það sé mikið framfaraskref fyrir Barna-og unglingadeildina en ráðin var til starfa yfirþjálfari , Ana Maria Vidal Bouza,  og er hún með yfirumsjón með öllu yngri flokka starfinu og þar með talið samskipti við þjálfara og æfingaáætlanir allra flokka og samhæfingu og samræmingu milli flokka og yfirumsjón með að skráning iðkenda skili sér og léttir það mikið á sjáflboðaliðastarfi ráðsins.

Sett var saman þjálfarahandbók í samvinnu við yfirþjálfara sem allir þjálfarar yngri flokka fá í hendurnar til að vinna eftir í samstarfi við yfirþjálfara deildarinnar og með því verður bæði eftirfylgnin betri sem og þjálfararnir okkar hafa vinnutæki í höndunum.

Styrkur fékkst til prentunar og kaupum  á höfundarétti á bókinni frá UMSK og Rannís og er markmiðið að reyna að setja hana á rafrænt form einnig þannig að þjálfarar geti  flett upp í henni í símanum sínu t.d

 

Íslandsmót yngri flokka, fyrri hluti, sem BUR hafði fengið úthlutað í október var haldið  en því miður þá fékkst skólabyggingin ekki undir gistingu krakkanna utan af landi og var talsverð vinna að redda öllum gistingum hér í bæjarfélaginu og næsta nágrenni. En það tókst með góðri samvinnu.  Mótið tókst mjög vel og var borðað í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ og maturinn fékk háa einkunn hjá þátttakendum.  Á svona stundum þá vantar fleiri hendur og komu margir foreldrar og aðstoðuðu á mótinu og var frábært að fá að sjá framan í marga nýja foreldra sem lögðu hönd á plóginn.  Samtals mættu 44 lið alls staðar af landinu á mótið.

Stelpurnar okkar í U16 sitja í efsta sætinu eftir það mót, af 11 liðum  en seinni hluti mótsins er í maí 2022 í Neskaupstað.

Afturelding var með 2 lið í U12 stúlkna

Og við sendum sameiginlegt strákalið í U16 með Sindra frá Höfn og Þrótti R.

Skólablak

Skólablak eru blak viðburðir fyrir grunnskóla krakka í 4.-6. bekk og voru haldnir um  allt land og var öllum skólum boðin þátttaka. Skólamótið í Mosfellsbæ fór fram að Varmá í Fellinu 29.október og var það 11. og það síðasta í röðinni.  Leikmenn úr meistaraflokkunum aðstoðuðu við að setja upp vellina og komu einnig ásamt yngri iðkendum deildarinnar og stjórnarmönnum  og aðstoðuðu á mótinu sjálfu. Glæsileg umgjörð var um mótið og frábært að sjá uppsetninguna í Fellinu. Spilað var á grasinu og var gaman að sjá krakkana koma frá skólunum í Mosfellsbæ og greinilegt að þau skemmtu sér mjög vel. Það mættu krakkar frá Lágafellsskóla, Varmárskóla og  einnig nokkrir  úr Helgafellsskóla.

Mótsdaginn í Mosfellsbæ bar upp á ‚Hrekkjavökudaginn‘ og mættu margir í búningum sem setti skemmtilegan svip á mótið.  Hugmyndin er að allir skólarnir séu samankomnir á sama tíma með sömu árganga þannig að um mót á milli skóla sé að ræða, en vegna Covid þá var fallið frá því og mættu skólarnir hver í sínu lagi.  Vonandi tekst það á næst,  þannig að jafnaldrar frá öllum skólum geti hist og haft gaman saman.

Búningamál

Afturelding hefur haft samning við JAKO sem er nú á síðasta ári samningsins og ekkert hefur heyrst frá áframhaldandi samninga við þá þó tilkynnt hafi verið á formannafundi að það yrði samið aftur. Ef maður fer á heimasíðu JAKO og velur Aftureldingu þá er hvergi að sjá að blak sé iðkað í félaginu þrátt fyrir að vera eina deildin sem er með margfalda Íslandsmeistara í meistaraflokki kvenna. Ástæðan er líklega sú að ekki komu búningar fyrir kvennaliðið fyrr en eftir áramót 2021 sem hægt var að sætta sig við. Ca mánuð eftir að kvennalið Aftureldingar fékk loksins búning frá JAKO þá birtist Þróttur Reykjavík sem einnig spilar í úrvalsdeild kvenna í alveg eins búning, bæði aðal og varabúning.  Mér finnst það undarlegt að það skuli gerast og mér finnst að við sem félag ættum að gera þá kröfu á þá sem félagið semur við að kepnisbúningur í efstu deild, hvað lit varðar, sé ekki seldur til annars félags í sömu íþrótt og sömu deild.

Ég legg það einnig  til að félagið fylgi eftir því við samningsaðila að þeir séu með búningaval deildinna allra eða hreinlega sleppi því ef þeir geti ekki boðið upp á það.  Það virðist sem handbolta- og fótboltabúningar séu þarna í aðalhlutverki.  Búninganefnd var áður fyrr starfrækt í félaginu þar sem reynt var að samhæfa útlit  búninga en nú virðist hver deild vera með sitt eigið útlit bæði hvað lit og stíl varðar. Þar sem nýr samningur verður frá og með næstu leiktíð þá er ekki úr vegi að fara að leggja í þessa vinnu því til þess að vera tilbúin í haust þá þarf að byrja ekki seinna en í maí að skoða hvað er í boði og að samningurinn sé alla veganna klár og við fáum að sjá hann og getum byrjað að undirbúa næstu leiktíð.

Aftureldingarbúðin

Blakdeildin rekur Aftureldingarbúðina en markmiðið með henni er að bjóða Mosfellingum upp á Aftureldingarvörur í íþróttamiðstöðinni. Það er engin gróði af búðinni en hún er þarna og er þjónusta við félagsmenn.  Einnig hefur búðin tekið þátt og boðið upp á vörur í fjáröflunum Aftureldingar.  Á síðasta ári var keypt inn mikið vegna fyrirhugaðar bæjarhátíðar sem síðan féll niður og munu þær vörur vonandi verða seldar fyrir næstu bæjarhátíð. En um er að ræða fána í hverfalitunum, bæði á flaggstangir sem og á húsþök og litlir fánar  fyrir litlar hendur ásamt blöðrum til að búa til fígúrur.

Aðstaðan:

Aðstaða blakdeildarinnar er með því besta sem gerist á landinu hvað blakvellina snertir.  Ný lýsing var tekin í notkun í salnum okkar, sal 3 árið 2020 en ennþá á eftir að gera lýsinguna þannig að hún henti blakinu og má betrumbæta stillingarnar skilst okkur og hafa engin svör fengist varðandi það frá síðasta aðalfundi.

Óskastaðan er að geta haft sal 3 eingöngu undir blakið en á laugardagsmorgnum er salurinn notaður undir íþróttaskóla barnanna og þá færast blakæfingarnar í sal 2.  Handboltinn notar geymsluna þar sem netin og súlurnar eru undir  auglýsingarskilti  og er yfirleitt mjög erfitt að komast að blakáhöldum þessa daga því að þungur vagn með skiltunum og körfum með járn undirstöðum  eru sett fyrir framan súlurnar og ofan á netin sem oft liggja í gólfinu. Þetta þarf að laga og sjá til þessa að búnaðurinn sé aðgengilegur þegar nota á hann.

Blakdeildin er að samnýta sal 3  mjög vel fyrir alla sína hópa til að koma þeim fyrir og gefa úrvalsdeildarliðin eftir æfingatíma á keppnisvelli svo það gangi eftir.  Þetta er ákaflega mikilvægt því blak er ekki bara fyrir börn og afreksfólk og samvinnan þar því mjög mikilvæg.

Aðstaða fyrir afreksfólkið okkar hvað  varðar aðgang að því sem við teljum  að sé eðlilegt hvað styrktarþjálfun snertir er alls engin nánast.  Aðstaðan til líkamsræktar og styrktarþjálfunnar er afleit og í rauninni engin og hefur blakdeildin kvartað yfir því í nokkur ár, bæði til framkvæmdarstjóra félagsins og til aðalstjórnar og íþróttafulltrúa félagsins .  Aðalstjórn Aftureldingar hefur beitt sér fyrir þessu og hefur verið sent bréf á bæjaryfirvöld og fundað með þeim út af þessu.

Það er algjörlega óskiljanlegt að Mosfellsbær skuli bjóða sínu afreksfólki upp á þessa aðstöðu eða  réttara sagt aðstöðuleysi og á sama tíma viljum við eiga  íþróttafólk í fremstu röð og hreykjum okkur að þeim sem við eigum.  Nú hefur Afturelding fengið afnot af “Litlu Eldingu” sem er  litli salurinn niðri við sal 2 og var áður bardagasalur.

Það hefur ekki hjálpað mikið fyrir okkar afreksfólk því mjög erfitt virðist vera að fá tíma sem hentar fyrir meistaraflokkana okkar og hefur t.d. mfl. kk ekki neinn tíma þarna og er það algjörlega óásættanlegt.  Blakdeildin fékk úthlutað tveimur klst. á viku fyrir báða meistaraflokkana okkar. Mánudagar frá kl. 18:00-20:00 og gat eingöngu annar hópurinn nýtt sér þennan tíma.  Þetta er langt í frá að vera ásættanlegt og hlýtur að vera hægt að vinna þetta betur og krefst ég þess að það verði gert.

Það eru ekki heldur alltaf fastir leikdagar sem gerir þetta snúið. En það hlýtur að vera hægt að finna 1 klst. fyrir hvorn hóp á þeim tíma sem þeim hentar af öllum þeim tímum sem í boði eru.

Meistaraflokksráð deildarinnar hefur lagt mikið upp úr umgjörð á leikjum meistaraflokkanna okkar frá upphafi.  Útbúnir hafa verið fánar af öllum leikmönnum sem hanga uppi á leikjum liðanna t.d. og hafa vakið athygli gestaliða í öðrum íþróttagreinum t.d.  og reynt er að standa sem allra best að allri umgjörð í kringum liðin okkar og heimaleikina og reynt að uppfylla allar þær skyldur sem sambandið setur.  Við gerum ákveðnar kröfur á leikmenn okkar í úrvalsdeildum karla og kvenna varðandi styrktarþjálfun og ætlumst til þess að þau framfylgi því og á móti skuldbindur félagið sig til að útvega þá aðstöðu sem þarf, en við erum ekki að standa okkur þar hvað styrktarþjálfun varðar.

Eitt sem mig langar að nefna og sem við getum gert mun betur er  að  við þurfum  að vera mun sýnilegri í bæjarfélaginu og þurfum við öll að taka okkur á hvað það varðar sama um hvaða hóp er að ræða.  Skapa sterkari ímynd og jákvæða af íþróttinni okkar því hún er frábær og hentar öllum. Við þurfum að vera duglegri við að setja t.d. fréttir í Mosfelling og birta á samfélagsmiðlum það sem við erum að gera og þarf hver hópur innan blakdeildarinnar að hugsa um það í rauninni.

Strandblaksvöllurinn á Stekkjarflöt er í umsjón blakdeildarinnar. Við höfum verið í góðu sambandi við bæinn varðandi  völlinn og hefur Þórey Björg Einarsdóttir borið hitann og þungan af því starfi undanfarin ár en hún hefur sagt sig frá því starfi og þurfum við að fá einhverja sem hafa áhuga á þessum hluta til að taka við boltanum. Það sem gerir völlinn ekki svo aðlaðandi til að dvelja á er að það vantar salernisaðstöðu á svæðið sem vonandi kemur einn daginn.

Bærinn hefur lofað því að halda honum við og við þurfum að halda þeim við efnið ef hann á ekki að drabbast niður og auglýsi ég hér með eftir sjálfboðaliðum til að taka þennan strandblaksbolta og halda á lofti fyrir hönd deildarinnar.

Okkar fólk stóð sig frábærlega í sandinum á síðasta ári og tóku mjög margir þátt í bæði Íslandsmótunum sem og í kvennadeildinni þar sem spilaðir eru leikir vikulega.

Á Íslandsmótinu í ágúst þá stóð Thelma Dögg Grétarsdóttir uppi sem Íslandsmeistari kvenna eins og áður hefur komið fram.

Daníela Grétarsdóttir og Rut Ragnarsdóttir urðu deildarmeistarar í 2.deild kvenna

Þórdís Ólafsdóttir varð deildarmeistari í 4.deild kvk.

Blakfólk deildarinnar:

Blakkona Aftureldingar 2021  var valin Thelma Dögg Grétarsdóttir  og Blakmaður Aftureldingar var Sigþór Helgason og voru þau bæði mjög vel að þessum tilnefningum komin en þau spiluðu bæði mjög stór hlutverk í úrvalsdeildarliðum blakdeildarinnar auk þess sem Thelma var stigahæst á leiktíðinni var valin í lið tímabilsins, var stigahæsti leikmaður deildarinnar, Íslandsmeistari með kvennaliðinu okkar og Íslandsmeistari í strandblaki 2021.

Thelma var síðan kjörin íþróttakona Aftureldingar 2021 og Íþróttakona Mosfellsbæjar einnig og erum við ákaflega stolt af henni og hennar afrekum.

Landsliðin:

U19 stúlkur tóku þátt í Smáþjóðamóti sem haldið var á Laugarvatni í September og stóðu þær sig frábærlega og unnu þær mótið. Afturelding átti 3 leikmenn í hópnum auk þess sem  landsliðsþjálfararnir voru frá Aftureldingu, Borja og Thelma Dögg.

U17 kk og kvk landsliðin héldu á NEVZA í Danmörku og áttum við fulltrúa í báðum þeim liðum og komu stelpurnar heim með brons eftir mótið.

U19 kvk og kk fóru á NEVZA  í Finnlandi í nóvember og átti Afturelding fulltrúa báðum liðum í þeirri ferð auk þjálfarans.

U17 lið stúlkna og U18 lið drengja fóru  til Danmerkur til keppni í Evrópumóti unglingalandsliða í desember og áttum við fulltrúa í báðum liðum..

Verkefni A landsliða um áramótin síðustu féllu niður vegna Covid á síðustu stundu.

Alls voru 15 leikmenn Aftureldingar valin í landsliðsverkefni eða boðuð á landsliðsæfingar og sumir voru í tveimur aldurshópum.

Hér er listi yfir Aftureldingarblakara sem valdir voru í æfinga og eða landslið 2021.

Valdís Unnur Einarsd U 19 landslið A landslið kvk
Rut Ragnarsd U 19 landslið A landslið kvk
Daníela Grétarsd U 19 landslið A landslið kvk
María Rún Karlsdóttir A landsliðshóp
Tinna Rut Þórarinsdóttir A landsliðshóp
Thelma D0gg Grétarsdóttir A landsliðshóp
Jórunn Ósk Magnúsdóttir U17 landslið
Magni Þórhallsson U17 og U18 landslið kk
Dórothea Sigurðardóttir Æfingahóp U17 kvk
Ásta Margrét Rúnarsdóttir Æfingahóp U17 kvk
Isabella Rink Æfingahóp U17 kvk
Sunna Rós sigurjónsdóttir  U17 landslið
Sigþór Helgason A landslið kk
Kári Hlynsson A landslið kk
Þórarinn Örn Jónsson A landslið kk

Íslandsmótið 2020-2021:

Íslandsmót neðri deilda var slegið af vegna Covid og því engir deildarmeistarar því krýndir.

Öldungamót BLÍ var felt niður annað árið í röð vegna Covid.

Mikið af leikjum í efstu tveimur deildunum var frestað eftir því hvernig faraldurinn stóð á leikárinu

Ungu stúlkurnar okkar spiluðu í 1.deild kvenna með hléum en leikjum var haldið  úti þar eins og í efstu deildunum.

Eftir hlé á Íslandmóti efstu deildarinnar  eftir áramót var því haldið áfram upp úr miðjum apríl og úrslitakeppnin kláruð í maí.

Strákarnir okkar í Mizono deildinni enduðu í 5.sæti deildarinnar og komust því ekki í úrslitakeppnina en stelpurnar okkar fóru þangað og gerðu sér lítið fyrir og tóku þann stóra heim, og urðu Íslandsmeistarar 2021 eftir frábæra leiki við HK og  vannst titilinn á útivelli.

Eftir leiktíðina átti Afturelding 3 leikmenn í úrvalsliði kvenna: Thelma Dögg, Luz Medina og María Rún Karlsdóttir auk þess sem Thelma Dögg var valin besti leikmaður Mizunodeildar kvenna fyrir tímabilið.

Þjálfarar  leiktíðina 2020-2021:

Meistarflokkar karla og kvenna: Aðalþjálfari:  Borja Vincente.

Styrktarþjálfari mfl kk og mfl kvk: Ana Maria Vidal

2.fl. kvenna: Borja Vincente

3.fl. kvenna: Ana Maria Vidal.

4.fl.:Piotr Kempisty .

5. fl : Piotr Kempisty

6 -7 flokkur: Piotr Kempisty

 

Haustið 2021 komu nýjir þjálfarar inn í teymi yngri flokka.

Yfirþjálfari yngri flokka var ráðinn Ana Maria Vidal

U19, 1.d kvk : Borja Vincente og  Tinna Rut Þórarinsdóttir

U16 kvk:  Kristinn Rafn Sveinsson og Borja Vincente

U16-U18 kk: Dorian Poinc

U14 kvk: Dorian Poinc

U12 blandaður: Dorian Poinc

U10 og U8 börn: Anton Jónsson

 

Þakkir:

Þeir sem gefa kost á sér í ráð og stjórn blakdeildar fá sérstakar þakkir.   Oft er þetta vanþakklátt starf en öll erum við í þessu vegna áhuga okkar á íþróttinni eða vegna þess að barnið okkar stundar blakið og öll viljum við að starfið haldi áfram og allir eru alltaf að reyna að gera sitt besta. Við megum ekki missa sjónar á því.

Ég vil minna okkur öll á það að við skiptum öll máli hvort fyrir annað, allar deildir, allir  hópar, allur aldur. Við þurfum öll á hvort öðru að halda því það hefur verið aðalsmerki Blakdeildarinnar í gegnum árin að okkur hefur auðnast að halda samvinnu þvert á hópa og aldur og flestir hafa verið boðnir og búnir til að aðstoða þegar á þarf að halda og vonandi helst það þannig áfram.

Fyrir fámenna deild skiptir þetta miklu því hvert verkefni er stórt og krefst ákveðins fjölda svo framkæmanlegt sé.  Við skulum þakka fyrir þessa samvinnu því hún er ekki sjálfgefin.

Mjög mikilvægt er að foreldrar taki þátt í starfinu þó í litlum mæli sé.  Til að byggja upp öflugt barna- og unglingastarf þá þurfa foreldrar að vera tilbúnir að aðstoða og vera með og t.d. taka að sér ákveðið hlutverk innan flokksins. Margar hendur vinna létt verk er svo sannarlega satt og rétt í þessu tilfelli.

Ég vil  þakka sérstaklega öllum stjórnarmeðlimum í ráðum deildarinnar fyrir þeirra mikla og óeigingjarna starf á liðnu starfsári og starfsárum.

Þeim sem ætla að hætta vil ég færa sérstakar þakkir fyrir þeirra óeigingjarna starf fyrir deildina.

 

Í ráðum  blakdeildar  2020-2021 sátu:

Guðrún K Einarsdóttir formaður.

Guðbrandur Pálsson formaður mfl. ráðs

Einar Friðgeir Björnsson gjaldkeri mfl. kvenna

Þröstur Óskarsson mfl. ráði

Örvar Jóhannsson formaður BUR

Jórunn Edda Hafsteinsdsóttir BUR

Magnús Freyr Ólafsson gjaldkeri BUR

Perla Ingólfsdóttir formaður neðri deildar ráðs

Brynja Haraldsdóttir neðri deildar ráð

Erla Gunnarsdóttir neðri deildar ráð

Lilja H Sturludóttir neðri deildar ráð

Bára Ingimarsdóttir neðri deildar ráð

 

Megi næsta leikár verða  algjörlega Covid frítt og frábært.

 

Guðrún K Einarsdóttir

Formaður Blakdeildar Aftureldingar