Skýrsla meistaraflokks kvenna

Eftir góð og lofandi úrslit úr æfingaleikjum fyrr um veturinn þá var farið inn í Lengjubikarinn með það markmið að sigra Lengjubikarinn. Lengjubikarinn fer vel af stað og er liðið ósigrað í þremur fyrstu leikjunum, búið að mæta svokölluðu sterku liðunum í riðlinum og átti þægilegt prógram eftir, þar á meðan leik á heimavelli gegn Augnablik sem voru efstar þegar mótið var slaufað af vegna Covid-19.

Það var því svekkjandi að geta ekki klárað mótið því sigurlíkur okkar voru miklar, hefði gefið okkur mikið að taka titil rétt fyrir tímabil.

Mjólkurbikarinn byrjaði og fór liðið alla leið í 8.liða úrslit í Mjólkurbikarnum, þar drógst liðið gegn Breiðablik. Þar sem liðið var í harðri baráttu í deildinni um sæti á meðal þeirra bestu var ákveðið að hvíla nokkra af lykilmönnum liðsins, það var litið svo á, að mikilvægara væri að hafa alla heila fyrir átökin í deildinni og koma liðinu upp í deild þeirra bestu, þar sem Afturelding á heima.

Deildarkeppnin gekk einsog í sögu, liðið endaði í 2.sæti eftir, tveimur stigum á eftir KR. Liðið vann 12 leiki, gerði fjögur jafntefli og tapaði tveimur leikjum. Sæti í deild þeirra bestu staðreynd.

Afturelding hefur ekki átt lið í efstu deild frá árinu 2015 og verður því kærkomið að bjóða Mosfellingum upp á leiki í efstu deild árið 2022.

Hópurinn var að mestu leiti sá sami og árinu áður og verður áfram sá sami fyrir næsta tímabil auk styrkinga sem þegar eru farnar að detta inn og tilkynningar þess efnis gefnar út á næstu dögum.

Gott samstarf vannst með stjórn knattspyrnudeildar og meistaraflokki karla á árinu, tveir uppaldir þjálfarar hjá meistaraflokkum sem stöðugt eru í samskiptum símleiðis og á Varmásvæðinu, skipta á milli sín tímum, völlum, og öðru.

 

Þá viljum við að lokum koma fram þökkum til fráfarandi formanns deildarinnar, Guðbjörgu Fanndal Torfadóttur. Hún hefur unnið óeigingjarnt starf fyrir félagið í gegnum öll þessi ár sem hún hefur setið í stjórnum innan knattspyrnudeildarinnar. Leit er eftir duglegri formanni og verður mikil eftirsjá af henni.

Áfram Afturelding

 

Sigurbjartur Sigurjónsson

Formaður meistaraflokks kvenna