Skýrsla stjórnar

Frjálsíþróttadeild Aftureldingar – Skýrsla stjórnar fyrir starfsárið 2021.

Mosfellsbæ, 26.04.2022

Heildarfjöldi iðkenda á árinu var 53 og skiptist svona milli anna og aldurs:

  6-10 ára 11-14 ára 15 ára + Samtals
Vorönn 18 13 4 35
Haustönn 7 7 4 18
  25 20 8 53

Þetta eru heldur færri iðkendur en undanfarin ár og fer því miður áfram fækkandi. Illa hefur gengið að finna fasta þjálfara fyrir frjálsíþróttirnar og telja má víst að það sé ástæða fækkunar í deildinni. Áfram verður það helsta verkefni stjórnarinnar að finna hæfa þjálfara til að byggja upp starfið til lengri tíma.

Samstarf við Fjölni með iðkendur 15 ára og eldri hefur haldið áfram. Enginn þjálfari er á vegum Aftureldingar fyrir þann hóp og æfa þeir iðkendur með Fjölni ýmist í Laugardalshöll eða Egilshöll. Það samstarf hefur gengið vel en viðurkenna verður að ákveðinn þrýstingur er á iðkendur að færa sig yfir í Fjölni til að geta keppt með æfingafélögum sínum og taka þátt í boðhlaupum o.s.frv. og hefur því fækkað mjög í meistaraflokki Aftureldingar.

Árið 2021 einkenndist af covid eins og gefur að skilja og fá mót haldin.

Sumarnámskeið var haldið í samstarfi við sunddeild Aftureldingar fyrir 6 – 10 ára börn. Boðið var upp á heilsdagsnámskeið með frábærum þjálfurum. Óhætt er að segja að námskeiðið hafi gengið framar vonum og meira að segja hafi komið upp sú staða í sumum vikum að færri hafi komist að en vildu.

Haldið var upp á 100 ára afmæli Álafosshlaupsins árið 2021 og fór það fram þann 12. Júní að venju í frábæru veðri. Boðið var upp á tvær vegalengdir, u.þ.b 5 og 10 km. Hr. Guðni Th. Jóhannesson forseti heiðraði okkur með þátttöku sinni í hlaupinu en varð að lúta í lægra haldi fyrir hraðari hlaupurum á endasprettinum.

 

 

 

 

 

112 þátttakendur luku keppni, 23 í styttra hlaupinu og 89 í því lengra. Sigurvegarar í 10 km hlaupinu voru: Ingvar Hjartarson (36:24) og Verena Schnurbus (40:30) og í 5 km hlaupinu Elín Gísladóttir (32:07) og Bjartur Freyr Gíslason (25:35). Mikil ánægja var með framkvæmd hlaupsins og stefnt er að því að halda það með sama sniði 2022.

Undir lok árs fékk deildin styrk frá Krónunni til tækjakaupa. Keyptur var búnaður fyrir innanhússþjálfun fyrir ríflega styrkupphæðina. Þetta hefur gert okkur kleift að auka fjölbreytileika æfinganna mikið og verið til mikillar ánægju fyrir iðkendurna. Við kunnum Krónunni miklar þakkir fyrir stuðninginn.

Íþróttakona ársins var valin Arna Rut Arnarsdóttir en hún stóð sig frábærlega á árinu bæði á æfingum og þeim fáu mótum sem haldin voru. Ekki var tilefni til að velja íþróttakarl ársins í frjálsum að þessu sinni. Arna Rut var jafnframt stigahæsta stúlkan og hlaut því Gunnellubikarinn líka.

Mikið og lengi hefur verið rætt um að stofna hlaupahóp innan frjálsíþróttadeildarinnar og varð það loks að veruleika í upphafi árs 2022 undir stjórn Birnu Varðardóttur og Birgis Konráðssonar eftir góðan undirbúning á árinu 2021.

 

Fjárhagslega gekk árið vel upp og líta áætlanir fyrir 2022 vel út. Vísum við til ársreiknings og áætlunar fyrir nánari upplýsingar.

Virðingarfyllst,  Stjórn Frjálsíþróttadeildar Aftureldingar.