Ávarp formanns

Skýrsla formanns fyrir árið 2021

Aðalfundur Aftureldingar fór fram 29. apríl í Framhaldsskóla Mosfellsbæjar.

Stjórn Aftureldingar 2021

Birna Kristín Jónsdóttir, fomaður

Erla Edvardsdóttir, varaformaður

Sigurður Rúnar Magnússon, gjaldkeri

Geirarður Þórir Long, ritari

Gunnar Skúli Guðjónsson, meðstjórnandi

Reynir Ingi Árnsson, meðstjórnandi

Lára Berglind Helgadóttir, meðstjórnandi.

Síðastliðið starfsár hefur verir lærdómsríkt fyrir okkur eins og árið þar á undan þar sem heimsfaraldur setti ýmis strik í reikninginn. Við höfum lært að aðlagast stöðugt að nýjum reglum hratt og örugglega og fylgja þeim eftir. Vonandi erum við nú komin á beinu brautina og getum farið að njóta starfsins á allan þann hátt sem það bíður uppá.

Iðkendur

Uppskeran á árinu 2021 var að mörgu leiti mjög góð og það verður aldrei of oft sagt að það er svo innilega gleðilegt þegar maður sér fólkið okkar uppskera árangur erfiðisins. Til dæmis enduðu 5 af 6 meistaraflokkum okkar í efstu deild og það hlýtur að vera markmið okkar að allir meistaraflokkarnir séu þar. Margir sigrar hafa unnist í flestöllum deildum. Hjá hópíþróttunum eru nokkrir sigrarnir sem standa hærra uppúr en það að komast upp um deild er alltaf mjög stórt skref bæðu fóru ungu strákarnir okkar í U liðinu í handboltanum upp í Grillið sem var frábær árangur og gefur þeim mikla reynslu fyrir framtíðina og meistaraflokkur kvenna í handboltanum fór aftur upp í efstu deild. Meistaraflokkur kvenna í knattspyrnu spilar aftur í deild þeirra bestu „Bestu deildinni“  eftir nokkurra ára fjarveru. Gleðin verður svo áþreifanleg og þetta eru augnablikin sem gerir þetta allt þess virði. Blakkonurnar fögnuðu Íslandsmeistarartitlinum og léku til úrslita í bikar og deild.

Íþróttakona ársins hjá Aftureldingu 2021 er Telma Dögg Grétarsdóttir en árið var henni mjög gott og er hún einn af máttarstólpum Aftureldingar og A landsliðs Íslands.

Íþróttamaður Aftureldingar var kjörinn Þórður Jökull Henrysson karatemaður. Undanfarin ár hefur Þórður verið afkastamikill bæði hérlendis og á alþjóðlegum mótum, Þórður er í 11. sæti á heimslista U21 í kata karla.

Yngri iðkendur okkar hafa verið okkur alls staðar til fyrirmyndar og staðið sig mjög vel og þar ber helst að nefna að öðrum ólöstuðum að 5 fl. karla í knattspyrnu vann N1 mótið sl. sumar en það hefur ekki gerst hjá okkur áður og er stór áfangi.

Iðkendum í Aftureldingu hefur fjölgað jafnt og þétt síðustu ár en á árinu fjölgaði þeim um 214 eða 14,8% eftir að hafa fækkað lítillega árið áður. Þann 31. desember 2021 voru skráðir iðkendur 1.658 en það eru 1.444 einstaklingar sem merkir að það eru 207 börn sem æfa fleiri en eina grein. Í haust var farið í markvissa vinnu með yfirþjálfurum þriggja stærstu deildanna með það að markmiði að tímatafla hjá 1. – 4. bekk skaraðist ekkert, það varð úr að ein æfing skaraðist hjá þessum aldri þannig að það er tækifæri til bætingar. Til þess að það gangi upp þá þarf Mosfellsbær að aðstoða okkur með því að leysa frístundamál þessara barna þannig að við getum hafið starfið fyrr á daginn. Annað hvort með því að taka aftur á móti börnunum í frístund viðkomandi skóla að lokinni æfingu eða við leysum það í sameiningu að Varmá með einhverskonar vistun þar til hefðbundinni frístund á að ljúka.

Aðstöðumál

Okkur í aðalstjórn eru aðstöðumálin ávalt hugleikin, fyrir fjórum árum hélt Afturelding opinn íbúafund með öllum framboðum sem þá voru til bæjarstjórnarkosninga og við fórum yfir raunstöðu í aðstöðumálum hjá okkur í félaginu sem þá voru orðin mjög slæm. Það verður að segjast að mikið hefur áunnist síðan. Það var settur á laggirnar samráðsvettvangur Mosfellsbæjar og Aftureldingar sem hefur fundað reglulega og farið yfir viðhalds- og nýframkvæmdir. Þessi vettvangur er mikið framfaraskref og er það okkar að gera hann enn skilvirkari.

Viðhald var víða komið á síðasta söludag og má nefna ný gólf í Sali 1, 2 og 3 að Varmá, lýsing í sali, nýtt gervigras, endurnýjun á klefum 1 – 4 og síðast en ekki síst ný skrifstofuaðstaða fyrir félagið og bygging á Fellinu sem er mikil búbót fyrir okkur og starfið í yngri flokkum félagsins í knattspyrnu enda stöðug fjölgun.

Á 110 ára afmælisfundi félagsins fyrir tveimur árum tilkynnti Haraldur Sverrisson bæjarstjóri okkur að bærinn ætlaði að fara í þarfagreiningu með okkur á svæðinu og aðstöðunni að Varmá sem var unnin í samráði við verkfræðistofuna Eflu. Sú vinna var unnin í samráði við allar deildir sem komu með sína greiningu og lokaafurðin, forgangasröðun verkefna var kynnt á síðasta aðalfundi Aftureldingar. Það er mikil eftirvænting eftir því að sjá þessar framkvæmdir raungerast eins og ný aðstöðubygging, endunýjun á „aðalvellinum“ með nýju gervigrasi og hlaupabraut og yfirbyggð stúka við kanttspyrnuvöllinn.

Þetta eru allt jákvæð skref en betur má ef duga skal í uppbyggingu íþróttamannvirkjanna. Það er innileg ósk okkar um að hægt sé að ráðast í þessar framkvæmdir sem allra fyrst. Íbúafjölgun er hröð hér í Mosfellsbæ og iðkendum í Aftureldingu fjölgar samhliða, við nýjustu fréttir um uppbyggingu byggðar í landi Blikastaða þá verðum við að gera saman markvissari framtíðarsýn með raunhæfri tímalínu um framtíð okkar og aðstöðunnar. Við verðum að hugsa stórt í þessu samhengi. Vissulega getur aðstaðan okkar að Varmá ekki stækkað endalaust en þess mikilvægara að vanda til verksins. Fólk mun líta til Aftureldingar þegar það fer að velja sér búsetu og það er okkar metnaður að  vera í fremstu röð í okkar starfi og þar með talið í aðstöðumálum.

Við skorum á þá sem munu hljóta góða kosningu á laugardaginn að halda áfram að vera í miklu og góðu samstarfi við okkur og byrja strax að hugsa til framtíðar.

Mig langar í lokin að þakka fyrir mig, þann stuðning og traust sem ég finn frá ykkur. Berum virðingu hvert fyrir öðru við erum 11 deildir sem mynda Aftureldingu og allar jafn mikilvægar. Ég hvet ykkur til að vera dugleg að mæta á alla okkar viðburði og kappleiki af því það er svo mikilvægt og gaman að tilheyra svo flottum hópi sem Afturelding er.

Áfram Afturelding

Birna Kristín Jónsdóttir, Formaður Aftureldingar